Áhrif tóbaksreykinga á stoðkerfið

Höfundur: Arnar Már Ármannsson, sjúkraþjálfari BSc

Í dag vita líklega flestir hvaða afleiðingar reykingar geta haft. Yfirleitt hugsar fólk fyrst um áhrif tóbaksreyks á hjarta, æðar og lungu og veit að hann er einn helsti orsakavaldur lungnakrabbameins. Þó er það svo að reykingar hafa ekki einungis áhrif á lungun, hjarta- og æðakerfið. Ekki er víst að allir átti sig á hversu víðfeðm áhrif reykinga geta haft á stoðkerfi líkamans.

Í grein frá 2013, þar sem skoðaðar voru og teknar saman rannsóknir sem gerðar hafa verið sl. ár varðandi tengsl reykinga og stoðkerfis fengust áhugaverðar niðurstöður sem vert er að veita gaum.

Beinþynning og reykingar

– Reykingar eru einn helsti áhrifavaldur þess að þróa með sér beinþynningu. Niðurstöður rannsókna benda til að bein tenging sé á milli reykingaára og magn sígaretta reyktra á sama tíma þegar skoðuð er tíðni beinþynningar. Skiptir þá engu máli hve gamall, hvers kyns eða hve þungur maður er. Reykingar hafa þessi sömu áhrif á alla!

Beinbrot og reykingar

– Það gefur því auga leið að minni beinþéttni þýðir minni beinstyrkur sem aftur þýðir brothættari bein. Sem dæmi benda niðurstöður rannsókna til aukinnar hættu á að hryggbrotna (allt að 32% auknar líkur) eða mjaðmarbrotna (allt að 40% auknar líkur) einhverntíman yfir ævina ef reykt er. Sláandi ekki satt!? Og þetta er ekki allt, það hefur nefnilega sýnt sig að bein eru töluvert lengur að gróa aftur eftir beinbrot hjá reykingafólki. Nokkrar ástæður gætu legið fyrir því. Þekkt er að nikótín hamlar fjölgun frumna sem eru mikilvægar í gróanda. Auk þess hefur nikótínið þau áhrif að æðar þrengjast sem skerðir blóðflæði til vefja líkamans og hægir þar að leiðandi á gróanda.

Bakverkur og reykingar

– Sýnt hefur verið að bakverkur getur verið fylgifiskur reykinga. Algjörlega óháð aldri, kyni, líkamsformi og lífsstíl. Áður voru vangaveltur um hvort fólk reykti af því það væri með bakverk og að reykingar væru þannig að hjálpa fólki að takast á við hann, en búið er að þurrka þær vangaveltur út af borðinu og erfitt að taka slíkar afsakanir gildar. Eins og fyrr hefur komið fram þrengir nikótín æðarnar og skerðir þannig blóð- og súrefnisflæði til vefja líkamans sem má að líkum leiða að sé ein af stórum ástæðum fyrir bakverk.

– Þá eru vísbendingar um að reykingar geti valdið verkjum í vöðvum líkamans, auki líkur á slit- og liðagigt og vöðva- og sinatognunum. Einnig hafa þær neikvæð áhrif á vöðvastyrk sem er okkur mikilvægt að viðhalda svo lífsgæði haldist sem best út ævina.

Það sem þessi fáu en fróðlegu punktar ættu að segja okkur um reykingar er einfaldlega „sleppum þeim“. Sértu að reykja nú þegar gerðu þitt besta til að hætta fyrr en seinna og minnkaðu líkurnar á hinum ýmsu leiðindar fylgikillum þeirra. Það er aldrei of seint að hætta!

Athugið! Það þýðir lítið að hugsa eins og annar kaffibrúsakallanna sagði forðum sem var eitthvað á þessa vegu „tjahh læknirinn sagði að það væri aldrei of seint að hætta, mér liggur því svo sem ekkert á“. ;o)

Heimildir:
Michele Abate og félagar. (2013 apr-jun) Muscles Ligaments Tendons J. 3(2), bls 63–69.
Birt á internetinu Jul 9, 2013. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3711704/

Höfundur:
Arnar Már Ármannsson, sjúkraþjálfari BSc