Leiðrétting líkamsstöðu
Hreyfistjórnun
Mjúkpartameðferð
Liðlosun
Stöðugleikaþjálfun
Bylgjumeðferð
Rafstraumsmeðferð
Nálastungur

Nálastungur

Nálastungur eru viðurkennd verkjameðferð sem margar fagstéttir beita en meðal þeirra eru sjúkraþjálfarar sem hafa lokið námi sem er samþykkt af Landlæknisembættinu.
Nálastungur hafa verið stundaðar árþúsundum saman í Kína og má heita að þar í landi séu þetta hefðbundnar læknisaðferðir gegn öllum kvillum sem hrjáð geta líkamann. Það leikur enginn vafi á að Kínverjar hafa í áranna rás þróað áhrifaríka aðferð sem vísindin hafa litla skýringu á. Langt fram eftir síðustu öld voru kínverskar nálastungur litnar hornauga af vestrænum læknum. Síðustu ár hafa æ fleiri vestrænir fagaðilar lagt stund á nálastungur og beitt þeim sem verkjameðferð þar sem hægt hefur verið að skýra áhrif þeirrar aðferðar með vísindalegum rannsóknum. Nýlegar rannsóknir hafa til dæmis sýnt fram á að margir nálastungupunktar eru þéttsetnari taugaendum en svæðið í kring. Þeir fagaðilar sem stunda svokallaðar vestrænar nálastunguaðferðir notast við punktaval Kínverja án þess að aðhyllast greiningaraðferðir þeirra og heimspeki.

Þegar nál er stungið í gegnum húð í vöðva, sinar, liðbönd og jafnvel beinhimnu berast boð frá viðkomandi líkamshluta inn í mænu og upp í heilastofn og heila. Til að auka enn frekar á áhrif stungunnar eru nálarnar dregnar inn og út eða snúið. Við það framkallast ákveðin tilfinning sem kallast de-qi en hún getur einkennst af dofa-, hita-, þyngsla- og/eða slökunartilfinningu. Sumir meðferðaraðilar tengja vægan rafstraum í nálarnar. Miðtaugakerfið bregst við þessum boðum með því að losa út ákveðin verkjahamlandi efni en það hefur verið hægt að sýna fram á með vísindalegum rannsóknum. Meðal þess sem sýnt hefur verið fram á er að heilinn losar út í auknu magni endorfin, enkefalin og serotonin. Sársaukaþröskuldurinn hækkar þannig að verkjaupplifun verður minni og vellíðunartilfinning færist yfir líkamann eins og oft vill verða í kjölfar þolþjálfunar. Talið er að nálastungur geti einnig komið í veg fyrir að verkjaboð frá viðkomandi líkamssvæði nái til miðtaugakerfisins, (gate control theory).

Nálastungur geta verið heppilegur valkostur sem verkjameðferð við einkennum frá vöðvum og liðum. Minni árangurs er að vænta ef einkennin eiga uppruna sinn frá taugakerfi líkamans eða eru af andlegum toga. Meðferð er hætt að loknum fimm skiptum ef enginn árangur hefur náðst.