Skip to content

Meðferðir sjúkraþjálfara

Leiðrétting líkamsstöðu

Grunnur að því að leiðrétta misvægi í hreyfi- og stoðkerfi líkamans er að leiðbeina og æfa réttstöðu. Líkamstaðan getur t.d. verið það slæm að viðkomandi haldi sér vart uppi. Djúplægir “tónískir” líkamsstöðuvöðvar sem hafa það hlutverk að halda okkur uppi eru þá hættir að vinna og allt álag lendir á liðböndum og “fasískum” hreyfivöðvum sem ekki eru gerðir til að vinna þessa stöðuvinnu. Þetta veldur vöðvaójafnvægi, þannig verða sumir vöðvar stuttir, spenntir og aumir vegna ofálags en aðrir verða slappir og ofteygðir. Einnig stuðlar röng líkamsstaða að misvægi í hreyfingum liða hryggsúlu þar sem sumir liðir stirðna meðan aðrir liðir verða ofhreyfanlegir. Liðirnir vinna þá ekki í þeirri stöðu sem veldur minnsta álagi á brjósk þeirra en sú staða kallast miðstaða. Þetta getur valdið því að slit í liðum eykst og byrjar fyrr en ella. Hér gildir því að liðka upp stirða liði, auka stöðugleika þeirra ofhreyfanlegu, styrkja slappa vöðva, teygja spennta og auma vöðva og skapa þeim eðlileg vinnuskilyrði.

Hreyfistjórnun

Stór hluti verkja orsakast af truflun í hreyfistjórnun líkamans.
Góð hreyfistjórnun byggir á:
Eðlilegu stoðkerfi sem samanstendur af beinum, vöðvum, liðum, liðböndum og bandvef.
Eðlilegu taugakerfi þ.e. eðlilegri starfsemi heila, mænu og úttauga.
Aflfræði (e. biomechanical) sem felur í sér m.a. líkamsstöðu, hreyfivinnu, stöðuvinnu og vinnustellingar.
Heilbrigði hjarta, lungna og efnaskiptakerfis líkamans.

Ef truflun verður á einhverjum af þessum þáttum veldur hún rangri hreyfistjórnun og ef ástandið varir í langan tíma þá getur það leitt til langvinnra (krónískra) verkja. Meðferð byggir á að greina þá þætti sem hafa farið úrskeiðis, leiðrétta þá og leiðbeina um rétta hreyfistjórn. Sjálfsæfingar eru mjög mikilvægar til að rétt hreyfimynstur haldist og verði ómeðvitað með tímanum.

Mjúkpartameðferð

Nudd er líklega jafngamalt mannkyninu og hefur verið stundað um allan heim og í öllum menningarsamfélögum. Nudd snýst um að meðhöndla mjúkvefi líkamans á áhrifaríkan hátt. Það slakar á vöðvum, örvar blóðflæði til mjúkvefjanna og hreinsar því út úrgangsefni og nærir vefina með súrefnisríku blóði.

Flestir sjúkraþjálfarar nota nudd sem hluta af meðferð. Hefðbundið nudd, hreyfinudd, nudd með vibrator, bandvefslosun (e. myofascial release/connective tissue manipulation) eru dæmi um mjúkvefjameðferðir sjúkraþjálfara.
Markmiðið með nuddi er að mýkja upp og losa um vefina, minnka vöðvaspennu, auka blóðflæði til svæðisins og fylla taugabrautir af jákvæðum boðum, boðum um vellíðan en draga úr sársaukaboðum sem fyrir eru. Með nuddi er einnig hægt að losa um samgróninga í vöðvum, festum þeirra (sinum) og bandvef.

Liðlosun

Liðlosun (e. manipulation/manual therapy) felst í að liðka upp stirða eða læsta liði með sértækum aðferðum. Ákveðnir liðir hryggsúlu vilja gjarnan stirðna , einkum efstu liðir háls, brjóstbaksliðir, liðir á mótum háls og brjóstbaks og liðir á mótum brjóst- og mjóbaks. Sértæk liðlosun er til þess ætluð að bæta hreyfingar og starfræna færni liða, einnig getur hún létt á þrýstingi á taugar og æðar.

Margir sjúkraþjálfarar eru með sérfræðigráðu í meðferð liða og stoðkerfis (Manual Therapy), m.a. nokkrir í Sjúkraþjálfun Styrks.

Stöðugleikaþjálfun

Stöðugleikaþjálfun er beitt til að auka styrk djúplægra vöðva hryggsúlu og bæta þannig líkamsstöðu og stöðugleika ofhreyfanlegra hreyfieininga í hryggsúlu. Stöðugleikaþjálfun er hægt að beita á alla ofhreyfanlega liði, en þá eru ákveðnir vöðvahópar þjálfaðir í að halda lið/liðum í sinni miðstöðu. Miðstaða er sú staða þar sem álag dreifist jafnt á brjóskið í liðnum og sinar og liðbönd umhverfis liðinn eru í eðlilegri stöðu. Miðstaðan kemur í veg fyrir ofálag á lið og liðumbúnað og einnig getur hún dregið úr hættu á ótímabæru sliti.

Bylgjumeðferð

Hljóðbylgju-, stuttbylgju-, höggbylgjutæki ásamt laser eru tæki sem t.d. eru notuð til að minnka bólgur í vefjum og liðum, minnka spennu og eymsli í vöðvum og auka gróanda vefja. Festumein (bólga og verkir í vöðvafestum) og virkir “trigger punktar” / kvikupunktar í vöðvum geta oft verið svo sárir að erfitt reynist að meðhöndla þá með nuddi, en bylgjumeðferðir virka oft vel og draga úr sársaukaboðum.
 
Nokkrar vísindarannsóknir hafa sýnt að bylgjumeðferðir draga m.a. úr verkjum og bólgum í mjúkvefjum. Lasermeðferð á kvikupunkta og meðferð með samsettum hljóðbylgjum og blandstraumi á verkjasvæði hafa t.d. marktækt sýnt betri árangur gegn verkjum og vöðvaspennu borið saman við viðmiðunarhóp.

Rafstraumsmeðferð

Rafstraumsmeðferð er algeng verkjameðferð, henni er einnig beitt til að örva blóðflæði, draga úr bólgum, minnka spennu í vöðvum og styrkja vöðva. Tvær gerðir rafstraumstækja eru aðallega notaðar af sjúkraþjálfurum, þ.e. blandstraumstæki (e. interferential) og TNS tæki (e. transcutaneus nerve stimulation). Rafstraumurinn dregur úr verkjaboðum með því að loka fyrir verkjaboð frá mænu til heila. Þannig tekst oft að rjúfa verkjavíthring og sársaukaupplifun hjá viðkomandi. Margar rannsóknir hafa sýnt að TNS meðferð getur dregið verulega úr verkjum. Kosturinn við TNS tækið er að þetta er lítið og handhægt rafstraumstæki sem hægt er að kaupa eða leigja til eigin nota.

Nálastungur

Nálastungur eru viðurkennd verkjameðferð sem margar fagstéttir beita en meðal þeirra eru sjúkraþjálfarar sem hafa lokið námi sem er samþykkt af Landlæknisembættinu.
Nálastungur hafa verið stundaðar árþúsundum saman í Kína og má heita að þar í landi séu þetta hefðbundnar læknisaðferðir gegn öllum kvillum sem hrjáð geta líkamann. Það leikur enginn vafi á að Kínverjar hafa í áranna rás þróað áhrifaríka aðferð sem vísindin hafa litla skýringu á. Langt fram eftir síðustu öld voru kínverskar nálastungur litnar hornauga af vestrænum læknum. Síðustu ár hafa æ fleiri vestrænir fagaðilar lagt stund á nálastungur og beitt þeim sem verkjameðferð þar sem hægt hefur verið að skýra áhrif þeirrar aðferðar með vísindalegum rannsóknum. Nýlegar rannsóknir hafa til dæmis sýnt fram á að margir nálastungupunktar eru þéttsetnari taugaendum en svæðið í kring. Þeir fagaðilar sem stunda svokallaðar vestrænar nálastunguaðferðir notast við punktaval Kínverja án þess að aðhyllast greiningaraðferðir þeirra og heimspeki.

Þegar nál er stungið í gegnum húð í vöðva, sinar, liðbönd og jafnvel beinhimnu berast boð frá viðkomandi líkamshluta inn í mænu og upp í heilastofn og heila. Til að auka enn frekar á áhrif stungunnar eru nálarnar dregnar inn og út eða snúið. Við það framkallast ákveðin tilfinning sem kallast de-qi en hún getur einkennst af dofa-, hita-, þyngsla- og/eða slökunartilfinningu. Sumir meðferðaraðilar tengja vægan rafstraum í nálarnar. Miðtaugakerfið bregst við þessum boðum með því að losa út ákveðin verkjahamlandi efni en það hefur verið hægt að sýna fram á með vísindalegum rannsóknum. Meðal þess sem sýnt hefur verið fram á er að heilinn losar út í auknu magni endorfin, enkefalin og serotonin. Sársaukaþröskuldurinn hækkar þannig að verkjaupplifun verður minni og vellíðunartilfinning færist yfir líkamann eins og oft vill verða í kjölfar þolþjálfunar. Talið er að nálastungur geti einnig komið í veg fyrir að verkjaboð frá viðkomandi líkamssvæði nái til miðtaugakerfisins, (gate control theory).

Nálastungur geta verið heppilegur valkostur sem verkjameðferð við einkennum frá vöðvum og liðum. Minni árangurs er að vænta ef einkennin eiga uppruna sinn frá taugakerfi líkamans eða eru af andlegum toga. Meðferð er hætt að loknum fimm skiptum ef enginn árangur hefur náðst.