Meðferðir sjúkraþjálfara

Sjúkraþjálfun er starfsgrein á heilbrigðissviði sem byggist á þekkingu á stoðkerfi og hreyfikerfi líkamans. Hlutverk sjúkraþjálfara er að greina, meta og meðhöndla verki, misvægi í stoðkerfi og truflun á starfrænni færni. Meðferð byggir á greiningu vandans. Sjúkraþjálfarar beita fjölbreyttum aðferðum til að bæta líkamsástand og draga úr verkjum. Markmið meðferðar er m.a. að bæta líkamsstöðu, bæta styrk og úthald vöðva, viðhalda eðlilegum liðleika liða, mýkt og lengd vöðva, bæta hreyfistjórn sem og almenna líkamlega færni.

Dæmi um meðferðir sjúkraþjálfara eru:

Alhliða endurhæfing
Sjúkraþjálfarar líta á einstaklinginn í heild sinni og samspil hans við sitt nánasta umhverfi þ.e. athafnir daglegs lífs og umhverfi. Í endurhæfingu er tekið mið af þörfum hvers og eins, því þarfir einstaklinga eru ólíkar. Dæmi um það eru að fimleikastúlka þarf t.d. að hafa meiri liðleika en almennt gerist og vöruflutningamaður þarf að hafa meiri vöðvastyrk en t.d. skrifstofumaður.
Endurhæfing felur í sér þrjá meginþætti: greiningu, meðferðaráætlun og meðferð/aðgerðir.

Greining byggir á sögu og nákvæmri skoðun á hreyfi- og stoðkerfi líkamans. Nákvæm greining er gerð á vandamálum einstaklingsins, athugun á getu hans, þörfum og væntingum.

Meðferðaráætlun er sett upp miðað við niðurstöður skoðunar. Markmið verða að vera miðuð við getu og þarfir einstaklingsins. Hann þarf að sjá tilgang í því sem stefnt er að. Jafnframt þarf einstaklingurinn að vera virkur og ábyrgur í öllum ákvörðunum varðandi áætlunina.

Meðferð er fólgin í aðgerðum til að ná fram markmiðum. Aðgerðir felast meðal annars í breyttum lífsháttum, líkamsþjálfun og einstaklingsmeðferð. Sjúkraþjálfarar beita fjölbreyttum aðferðum í einstaklingsmeðferð.